top of page
Writer's pictureTorfi Rafn Halldórsson

Viðbót Williams & Halls við frétt Viðskiptablaðsins – Rivaroxaban WH


Síðastliðinn laugardag birtist frétt í Viðskiptablaðinu um lögbannskröfu þýska lyfjaframleiðandans Bayer á hendur Williams & Halls. Óska forsvarsmenn Bayer eftir því að lögbann verði sett á alla sölu lyfsins Rivaroxaban WH sem Williams & Halls setti á íslenskan markað í febrúar á þessu ári. Rivaroxaban WH er samheitalyf við frumlyfinu Xarelto, sem þróað er og framleitt af Bayer.


Erfitt getur talist að gera máli sem þessu full skil í stuttri frétt og finnst okkur hjá Williams & Halls rétt að árétta nokkur atriði sem við teljum að vanti í fréttina. Í upphafi sótti Bayer ekki um frumeinkaleyfi fyrir rivaroxaban á Íslandi, heldur aðeins í Evrópu og nokkrum öðrum völdum löndum utan Evrópusambandsins. Til að lengja enn frekar einkarétt sinn á lyfinu, umfram þau 25 ár sem frumeinkaleyfið veitir, sótti Bayer um ýmis auka einkaleyfi. Þar með talið sótti félagið um einkaleyfi á ábendingu lyfsins í hraðlosandi lyfjaformi. Það einkaleyfi var veitt árið 2015, þ.á.m. á Íslandi, en var svo afturkallað árið 2018 af Evrópsku einkaleyfastofunni. Bayer áfrýjaði þeim úrskurði og átti fyrirtaka í því áfrýjunarmáli að vera í febrúar á þessu ári. Vegna COVID var þess farið á leit að fyrirtakan yrði gerð í gegnum fjarfundarbúnað en Bayer neitaði. Málinu var því frestað til lok októbers 2021 sem þýddi að Bayer fékk auka frest um tæpt ár.


Forsvarsmenn Bayer telja að einkaleyfi, sem var afturkallað árið 2018, sé enn í fullu gildi hér á landi. Til viðbótar við það tefur félagið málið úr hófi fram og lítur svo á að vegna þess að ekki hefur verið gerð formleg staðfesting á afturköllun einkaleyfisins að þá sé það áfram í fullu gildi hér á landi. Dómafordæmi um hið gagnstæða má finna m.a. í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi. Þá hefur sú lagagrein innan einkaleyfalögjafarinnar, sem Bayer byggir mál sitt á, aldrei verið innleidd í íslensk lög.


Við hjá W&H erum eina íslenska lyfjafyrirtækið sem leggur alla áherslu á starfsemi á Íslandi. Við höfum verið afar dugleg við að skrá lyf undir okkar merkjum og flytja inn lyf frá öðrum lyfjafyrirtækjum, m.a. þau lífsnauðsynlegu lyf sem aðrir hafa gefist upp á að selja inn á okkar afar smáa markað. Þá höfum við einnig hagnýtt okkur tækifæri í líkingu við Rivaroxaban WH þar sem við höfum séð glufur í einkaleyfum. Þannig höfum við getað markaðssett samheitalyf mun fyrr á Íslandi en hægt er að gera í öðrum Evrópulöndum. Það sparar þjóðarbúinu gríðarlegar fjárhæðir, en Rivaroxaban WH eitt og sér mun spara íslenska ríkinu yfir 100 milljónir í ár. Að koma lyfi eins og Rivaroxaban WH í sölu þremur árum fyrr en einkaleyfin renna almennt út í Evrópu, og án þess að brjóta einkaleyfi hér á landi, er sparnaður fyrir okkur sem þjóð upp á um 300-400 milljónir. Það er öruggt að fullyrða að íslensku þjóðarbúi veiti ekki af slíkum sparnaði.


212 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page