Broksil hóstasaft
- atli15
- Jan 7
- 2 min read
Updated: Jan 8
Broksil (ambroxól hýdróklóríð) 6 mg/ml x 100 ml
Á þessum tíma árs er mikið um umgangspestir og algengt að fólk leiti til apóteka í leit að lyfjum við hósta og eða lungnaskít og þá er Broksil góður kostur sem fæst án lyfseðils.
Hósti er eðlilegt og oft nauðsynlegt viðbragð til að hreinsa öndunarveginn, hvort heldur af slími eða einhverju óæskilegu sem við höfum andað að okkur. Að hósta er því eðlilegur hlutur en getur þó verið vísbending um sjúkdóm í öndunarvegi. Hósta má flokka gróft í þurran hósta sem er hósti án slíms og blautan hósta sem er hósti með slími.
Broksil er slímleysandi lyf og því notað við blautum hósta þegar slím er til staðar sem
getur verið tilkominn vegna aðstæðna eins og skammvinnrar- eða langvarandi
berkjubólgu. Við slíkar aðstæður er ekki mælt með að nota hóstastillandi lyf þar sem hósti er nauðsynlegur verndandi þáttur í að hreinsa öndunarveginn.
Skammtastærðir og lyfjagjöf Broksil
Broksil er ætlað til inntöku og skal taka inn eftir máltíð. Broksil má gefa börnum allt niður í 1 árs.
Neðangreindar skammtastærðir eru ætlaðar fyrir upphafsmeðferð. Minnka má skammta um helming að 14 dögum liðnum. Broksil skal ekki nota lengur en 5-7 daga án samráðs við lækni.
Fullorðnir og unglingar eldri en 12 ára:
10 ml 2 sinnum á dag.
Börn á aldrinum 6 til 12 ára:
5 ml 2-3 sinnum á dag.
Börn á aldrinum 2-6 ára:
2,5 ml 3 sinnum á dag.
Börn á aldrinum 1-2 ára:
2,5 ml 2 sinnum á dag.
Ábendingar lyfsins eru:
slímleysandi verkun, notað sem stuðningsmeðferð með bakteríulyfjum við öndunarfæra-sýkingum, einkum þegar um er að ræða ofseytingu slíms í lungnaberkjum.
Lyfhrif lyfsins eru þau að það eykur seyti vökva í berkjum og barka, það dregur úr seigju slíms og örvar hreyfanleika bifhára þannig að flutningur slíms eykst. Þessi aukning á seyti vökva sem og losun slíms með bifhárum stuðlar að slímlosun úr öndunarvegi. Vert er að hafa í huga að notkun þessa slímleysandi lyfs dregur úr seigju slíms og stuðlar að brotthvarfi þess, bæði með hreyfingu bifhára í húðþekju og hóstaviðbragði. Þess vegna má búast við auknu flæði seytis, auk uppgangs og hósta. Gæta skal varúðar þegar
sjúklingum, sem ekki geta hóstað upp uppgangi að fullu, er gefið ambroxól þar sem uppsöfnun á seyti í lungnaberkjum getur átt sér stað. Einnig skal gæta varúðar þegar lyfið er gefið astmasjúklingum.
Frábendingar Broksil eru:
Ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju
hjálparefna lyfsins
Sjúklingar með maga- og skeifugarnarsár
Samtímis notkun ambroxóls og hóstastillandi lyfja
Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is.
Ef einhverjar spurningar vakna um Broksil eða Williams & Halls þá hvetjum við þig til að hafa samband við okkur.

